Flatarmál: 726 m2
Lengd meðfram götu: 29 m
Dýpt lóðar frá götu: 25 m
Frábær útsýnislóð í grónu hverfi. Lóðin stendur nokkru hærra en lóðin norðan við (fyrir "neðan") og því er beint útsýni til norðurs, til sjávar og að Kirkjufelli, til austurs að Klakki og Eyrarfjalli og til vesturs að Mýrarhyrnu. Lóðin hækkar frá götunni, stór hluti hennar er 2-4 metrum ofan við gangstéttarhæð og aftari lóðarmörk eru um 8 metrum hærri en gangstéttin. Samspil landslags og húss getur boðið upp á áhugaverða möguleika.
Gönguleiðir í skóla: Leikskóli 500 m, grunnskóli 610 m og framhaldsskóli 300 m.
Umhverfisgæði: Lóðin er steinsnar frá Hönnubrekku, sem er opið grænt svæði, þar sem börn renna á snjóþotum og sleðum á veturna, og Hönnugili þar sem gera á aðlaðandi gönguleið sem tengir betur saman hverfi bæjarins (sjá bls. 66). Frá Fellabrekku 1 er einnig örstutt í skógræktarsvæðið og uppá reiðveg, sem einnig er vinsæll útivistarstígur íbúa og þaðan í gönguleiðir ofan byggðar. Auðvelt og stutt er að komast niður í fjöru með því að ganga niður Fagurhólstún og Sæból.
Lóðin hentar vel fyrir einbýlishús eða parhús á einni eða tveimur hæðum. Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu og í aðalskipulagi (reitur ÍB-3) eru húsagerðum ekki settar miklar skorður. Bygging þarf þó að vera í samræmi við byggðamynstur, þ.e. falla vel að aðliggjandi byggð, sem og að landslagi. Stuðst er að hluta við skipulags- og byggingarskilmála fyrir Hjaltalínsholt.
Skilmálar aðalskipulags veita heimild til að auka byggingarmagn á óbyggðum lóðum þar sem það þykir henta, t.d. með því að leyfa aukaíbúðir þar sem stórar einbýlishúsalóðir eru.
Stutt er niður á fast en jarðvegsaðstæður ekki að fullu þekktar. Óska má eftir leyfi til að gera jarðvegsprufur til að kanna aðstæður.
Sjá hér til hliðar götumynd af ja.is - myndin opnast ef smellt er á hana. Fleiri myndir eru hér fyrir neðan.
Sjá samþykkt um gatnagerðargjald í þéttbýli Grundarfjarðar.
Sjá hér verðgrunn gatnagerðargjalda á vef Hagstofunnar.
Veittur er 50% afsláttur af gatnagerðargjaldi skv. samþykkt bæjarstjórnar um afslætti af tilteknum eldri lóðum á árinu 2025.
Dæmi um gjöld þar sem búið er að reikna 50% afslátt: (reiknað í jan. 2024, gjaldið er háð mánaðarlegum vísitölubreytingum)
200 m2 einbýlishús: 2,3 millj. kr.
120 m2 íbúð í parhúsi: 1,2 millj. kr.
Fellabrekka 1 er auða lóðin við hliðina á Fagurhólstúni 15 (rautt þak) og Fellabrekku 3 (blátt þak)
Klippa úr þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags.
Í framtíðinni verður falleg gönguleið upp Hönnugil að grunnskóla eða úr Hönnugili yfir Ölkelduveg, uppí skógrækt og á reiðveg.