LÓÐIRNAR VERÐA AUGLÝSTAR LAUSAR TIL ÚTHLUTUNAR FYRRI HLUTA FEBRÚAR 2024.
Fjórar samliggjandi lóðir sem standa nokkru hærra en lóðirnar austan og norðan við og því er einstakt útsýni yfir bæinn, að Grundarfjarðarkirkju og yfir sjó og fjöll. Lóðirnar eru skammt frá grunnskóla, sundlaug og íþróttasvæði og liggja í brekkurótum sunnanvert í byggðinni. Frá lóðunum er fallegt útsýni og einstök nálægð við náttúru og útivistarsvæði.
Lóðirnar standa í brekku og talsverð hækkun er strax ofan við gangstéttina en hækkunin er annars aflíðandi. Samspil landslags og húss getur boðið upp á áhugaverða möguleika.
Ölkelduvegur 39, stærð 12 x 24 m, 369 m2
Ölkelduvegur 41, stærð 10 x 24 m, 247 m2
Ölkelduvegur 43, stærð 10 x 25 m, 251 m2
Ölkelduvegur 45, stærð 14 x 25 m, 365 m2
Gönguleiðir í skóla: Leikskóli 670 m, grunnskóli 230 m og framhaldsskóli 620 m.
Umhverfisgæði: Kirkjan, dvalarheimilið og íbúðir eldri borgara eru einnig rétt þarna við. Lóðirnar eru umkringdar skógræktarsvæði og reiðvegur liggur sunnan/ofan við svæðið, en hann nýta bæjarbúar einnig til útivistar. Þaðan eru líka skemmtilegar gönguleiðir ofan byggðar, frisbígolfkörfur og ölkelda rétt austan lóðanna sem nýtur hverfisverndar.
Stuttur spölur er í Grafargil sem er þröngt gljúfur með fallegum fossum. Þar og víðar í nágrenninu eru heimkynni huldufólks. Sjá hér umfjöllun um álfabyggð.
Brekkurnar Hærra og Lægra Hellnafell mynda ramma um svæðið og skapa hlýlegt umhverfi.
Steinatjarnartúnið/Paimpolgarðurinn liggur rétt norðaustan við lóðirnar. Þar er stórt opið grænt svæði þar sem byrjað er að byggja upp fallegan og gróðurríkan garð með samspili við vatn.
Listaverkin Sýn eftir Steinunni Þórarinsdóttur, Veðurlistaverk Sólrúnar Halldórsdóttur, háhyrningur Unnsteins Guðmundssonar og steinarnir hans Listons eru öll í næsta nágrenni, sjá umfjöllun hér.
Lóðirnar eru innan Deiliskipulags Ölkeldudals og þar er gert ráð fyrir 3-4 lóðum fyrir raðhús á 1-2 hæðum. Í deiliskipulaginu segir:
Heimilt er að reisa 180-210 fermetra raðhús á 1-2 hæðum með 3-4 íbúðum (1 íbúð á lóð). Á uppdrætti er sýnd útfærsla með 4 íbúðum. Stærðir lóða geta breyst lítillega við fullnaðarhönnun og fylgja fjölda íbúðareininga.
Gera skal ráð fyrir 2 bílastæðum á lóð.
Vegna landhalla á lóðum skal gera grein fyrir landmótun og aðlögun að landi aðaluppdráttum. Gera skal grein fyrir frágangi á lóðamörkum, girðingum og stoðveggjum eftir því sem við á.
Hámarkshæð norðurhliðar (framhliðar) er 4,0 m mælt frá aðkomukóta. Hámarkshæð suðurhliðar (bakhliðar) er 6,0 m mælt frá aðkomukóta. Hús geta verið pallaskipt.
Í samræmi við ákvæði aðalskipulags skulu allar nýbyggingar, lóðir og stígar falla vel að aðliggjandi byggð og landslagi.
Við hönnun húsa og lóða þarf að huga sérstaklega að meðferð ofanvatns vegna vatnsrennslis úr hlíðinni ofan við lóðirnar. Gera skal grein fyrir meðferð ofanvatns á aðaluppdráttum.
Vanda skal frágang á lóðarmörkum Ölkelduvegar 43/45 sem liggja að aðkomusvæði skógræktarinnar og nota náttúrulegar lausnir/efni eins og kostur og stingur ekki í stúf við aðliggjandi svæði.
Áður en framkvæmdir hefjast skal leitast við að verja eða flytja til trjá- og runnagróður eins og frekast er unnt. Forðast skal rask á gróðri utan lóðar eða svæða sem framkvæmdir ná til og gróðursetja eða þökuleggja sár með viðeigandi gróðurþekju.
Svæðið er grasi gróið og trjágróður á hluta svæðis. Vanda þarf sérstaklega frágang og meðferð ofanvatns vegna vatnsrennslis úr hlíðinni ofan við lóðirnar. Óska má eftir leyfi til að gera jarðvegsprufur til að kanna aðstæður.
Sjá hér upplýsingar um deiliskipulag
Sjá hér til hliðar götumynd af ja.is, hún opnast ef smellt er á myndina. Fleiri myndir eru hér fyrir neðan.
Sjá hér verðgrunn gatnagerðargjalda á vef Hagstofunnar.
Dæmi: (reiknað í janúar 2024, háð mánaðarlegum vísitölubreytingum)
200 m2 einbýlishús: 4,6 millj. kr.
120 m2 íbúð í parhúsi: 2,4 millj. kr.
120 m2 íbúð í fjölbýli: 2,2 millj. kr.
80 m2 íbúð í fjölbýli: 1,4 millj. kr.
Byggingarframkvæmdir við 5 íbúða raðhús á Ölkelduvegi 29-37 (des. 2023).
Nýjar lóðir liggja upp Ölkelduveginn, í framhaldi af þessum.
Trjám á byggingarreitum þarf að finna nýjan stað skv. skilmálum deiliskipulags.