Fjórar samliggjandi lóðir, við Grundargötu 31 og 33 og Hamrahlíð 6 og 8. Hornlóðir liggja einnig að Hrannarstíg. Lóðirnar eru um það bil í miðjum bænum, nálægt allri helstu verslun og þjónustu. Lóðirnar eru innan miðsvæðis Grundarfjarðarbæjar en í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er stefna um að skapa heildstæðari og þéttari byggð í miðbæ Grundarfjarðar þar sem verslun og þjónusta er í göngufæri og grunnkerfi vel nýtt. Þrjár lóðanna eru auðar, en á þeirri fjórðu er fasteign í eigu bæjarins, sem keypt var af skipulagsástæðum og er hún ætluð til niðurrifs. Svæðið er í dag í biðstöðu og er nýtt undir matarvagna o.fl.
Gönguleiðir í skóla: Leikskóli 250 m, grunnskóli 400 m og framhaldsskóli 200 m.
Umhverfisgæði: Helstu kostir svæðisins eru að stutt er í allar áttir, þar sem lóðirnar eru miðsvæðis í bænum.
Lóðirnar gætu hentað vel fyrir fjölbýlishús með sameiningu tveggja eða fleiri lóða.
Í aðalskipulagi segir um reit ÍB-2 (miðsvæði) að nýbyggingar (endurbyggingar) þurfi að falla vel að einkennum og yfirbragði þeirrar byggðar sem fyrir er.
Reiturinn er þróunarreitur í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 og þar kemur eftirfarandi fram:
"Þrjár samliggjandi auðar lóðir eru við Grundargötu, Hrannarstíg og Hamrahlíð. Vegna uppbyggingar til framtíðar og til að greiða fyrir þróunarmöguleikum miðbæjar er gert ráð fyrir forkaupsrétti bæjarins á fasteign á fjórðu lóðinni, við Grundargötu 31 [lóðin hefur síðar verið keypt]. Í deiliskipulagi verði gerðir byggingarreitir fyrir sambyggð hús eða hús sem standa þétt saman þannig að þau afmarki rými vel. Gert verði ráð fyrir að á norðvesturhorni reitsins (þar sem nú er víkingahús og bátur) verði verslun eða þjónusta en að mestu verði byggingarnar íbúðarhúsnæði á einni til tveimur hæðum. Möguleiki er á að hafa þjónustu á neðri hæð og íbúðir á efri hæð. Húsin verði hönnuð þannig að hægt sé að byggja þau á mismunandi tímum, nema þörfin sé metin þannig að hægt sé að byggja allt í einu. Þannig væri hægt að byrja með húsi á horni Hrannarstígs og Grundargötu og annað á horni Hamrahlíðar og Hrannarstígs en með tímanum myndi myndast heildstæð húsaröð."
Á mestöllu svæðinu hafa áður staðið byggingar og er því ekki reiknað með að mikil efnisskipti þurfi.
Lóðarblöð eru ekki fyrir hendi.
Sjá hér til hliðar götumynd af ja.is - myndin opnast ef smellt er á hana. Fleiri myndir eru hér fyrir neðan.
Gatnagerðargjald skv. gjaldskrá Grundarfjarðarbæjar.
Sjá hér verðgrunn gatnagerðargjalda á vef Hagstofunnar.
Dæmi: (reiknað í janúar 2024, háð mánaðarlegum vísitölubreytingum)
120 m2 íbúð í fjölbýli: 2,2 millj. kr.
80 m2 íbúð í fjölbýli: 1,4 millj. kr.