LÓÐUNUM VERÐUR ÚTHLUTAÐ Í EINU LAGI
Þrjár lóðir fyrir xx m2 raðhús á einni hæð. Kvöð: Íbúðir eru ætlaðar íbúum 60 ára og eldri.
Um er að ræða nýjar lóðir vestan við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól. Í næsta nágrenni eru einnig átta íbúðir fyrir eldri borgara að Hrannarstíg 18 og sjö húsa raðhús að Hrannarstíg 28-40, sem einnig er ætlað eldri íbúum. Lóðirnar eru einstaklega vel staðsettar rétt við kirkjuna, sundlaug og íþróttasvæði.
Lóðirnar bjóða upp á fallegt útsýni yfir Kirkjufell, Grundarfjarðarkirkju og bæinn. Einnig bjóða þær nálægð við náttúru og útivistarsvæði.
Landhæð lóðanna er nokkuð jöfn.
Hrannarstígur 42, 44 og 46
Flatarmál: 179 m2
Lengd meðfram götu: 12,2 m
Dýpt lóðar frá götu: 14 m
Hrannarstígur 44, 50 og 52
Flatarmál: 151 m2
Lengd meðfram götu: 10,3 m
Dýpt lóðar frá götu: 14 m
* Stærðir lóða geta breyst lítillega við fullnaðarhönnun (segir í deiliskipulagi).
Gönguleiðir í þjónustu: Sundlaug og íþróttahús 390 m, heilsugæslustöðin og Kjörbúðin 550-600 m.
Umhverfisgæði: Lóðirnar eru á skjólsælu svæði, rétt austan og neðan við Hjaltalínsholt. Stutt er í skógræktarsvæði og að reiðveg, sem einnig er vinsæll útivistarstígur íbúa og þaðan í gönguleiðir ofan byggðar. Rétt vestan við lóðirnar rennur lækur eftir "Hönnugili" en þar er opið, grænt svæði sem áform eru um að gera aðlaðandi gönguleið og aðstöðu til útivistar.
Steinatjarnartúnið/Paimpolgarðurinn liggur austan við svæðið. Þar er stórt opið grænt svæði þar sem byrjað er að byggja upp fallegan og gróðurríkan garð með samspili við vatn.
Listaverkin Sýn eftir Steinunni Þórarinsdóttur, Veðurlistaverk Sólrúnar Halldórsdóttur, háhyrningur Unnsteins Guðmundssonar og steinarnir hans Listons eru öll í næsta nágrenni, sjá umfjöllun hér.
Í næsta nágrenni eru þó nokkrir þekktir staðir þar sem finna má híbýli huldufólks. Sjá hér umfjöllun um álfabyggð.
Heimilt er að reisa raðhús á einni hæð með innbyggðum bílskúr.
Þak skal vera mænisþak og þakhalli að lágmarki 14°.
Hámarkshæð íbúðarhúsa er 4,0 m mælt frá aðkomukóta.
Lóðirnar eru innan Deiliskipulags Ölkeldudals og þar er gert ráð fyrir sjö lóðum fyrir raðhús á 1 hæð.
Í deiliskipulaginu segir m.a. um lóðirnar:
Íbúðir skulu vera fyrir eldri íbúa sbr. skilmála aðalskipulags.
Gert er ráð fyrir 1 bílastæði á lóð auk bílskúrs.
Leggja skal áherslu á að byggingar falli vel að landi og aðliggjandi byggð. Gera skal ráð fyrir að húsin verði felld inn í hæðina (gröftur frekar en fylling) og lágmarka þannig skerðingu á útsýni eins og frekast er unnt.
Aðkoma að íbúðarhúsum er um akfæran göngustíg, sem verður að hámarki 3,5 m á breidd, með einstefnu og 15 km hámarkshraða.
Grundarfjarðarbær mun sjá um að leggja akfæran göngustíg, en hönnun hans mun haldast í hendur við undirbúning byggingarframkvæmda.
Sjá hér endanlega útgáfu deiliskipulags fyrir Ölkeldudal og hér auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins.
Sjá hér til hliðar götumynd af ja.is - myndin opnast ef smellt er á hana. Fleiri myndir eru hér fyrir neðan.
Gatnagerðargjald skv. gjaldskrá Grundarfjarðarbæjar.
Sjá hér verðgrunn gatnagerðargjalda á vef Hagstofunnar.
Dæmi: (reiknað í janúar 2024, háð mánaðarlegum vísitölubreytingum)
200 m2 einbýlishús: 4,6 millj. kr.
120 m2 íbúð í parhúsi: 2,4 millj. kr.
Séð ofan af Hjaltalínsholti yfir svæðið.
Lóðirnar eru hérna megin við Dvalarheimilið Fellaskjól, sem sést þarna fyrir miðri mynd.
Séð niður Hönnugil sem liggur rétt í jaðri svæðisins þar sem lóðirnar verða.