Flatarmál: 624m2
Lengd meðfram götu: 29 m
Dýpt lóðar frá götu: 25 m
Einstök útsýnislóð sem stendur í landhalla í jaðri byggðar á Hjaltalínsholti. Beint útsýni er til norðausturs og austurs yfir fjörðinn, á Klakk og Eyrarfjall, Grundarmön og til suðurs upp í fjallgarðinn. Götumegin er útsýni í Helgrindur og Mýrarhyrnu. Lóðin lækkar frá götunni og aftari lóðarmörk eru um 3-4 metrum lægri en gangstéttin. Lækkunin er nokkuð jöfn og aflíðandi. Samspil landslags og húss býður upp á áhugaverða möguleika.
Norðan við lóðina er laus lóð að Fellasneið 5.
Gönguleiðir í skóla: Leikskóli 800 m, grunnskóli 450 m og framhaldsskóli 600 m.
Umhverfisgæði: Rétt handan götunnar er aðgengi upp í skógrækt og uppá reiðveg, sem einnig er vinsæll útivistarstígur íbúa og þaðan í gönguleiðir ofan byggðar. Um 30 metrum sunnan/neðan við lóðina rennur lækur og þar er útivistarsvæði í "Hönnugili" þar sem til stendur að gera aðlaðandi gönguleið og aðstöðu til útivistar. Þar rétt við er einnig Hönnubrekka, þar sem börn renna á snjóþotum og sleðum á veturna. Auðvelt og stutt er einnig að komast niður í fjöru með því að ganga niður Fellasneið, Fagurhólstún og Sæból.
Norðan við lóðir 7 og 5 stendur álfasteinn sem úthlutað var lóðarnúmerinu 3 við Fellasneið. Sjá hér umfjöllun um álfabyggð.
Lóðin er innan deiliskipulags fyrir Ölkeldudal og er heimild fyrir allt að 210 fermetra sérbýli á einni hæð með kjallara. Þak skal vera mænisþak. Við hönnun skal leggja áherslu á að fella hús og lóð vel að landi og vanda frágang á lóðarmörkum við útivistarsvæði. Gera skal grein fyrir frágangi á lóðamörkum á aðal- og/eða lóðauppdráttum.
Í samræmi við deiliskipulag skal, áður en framkvæmdir hefjast, leitast við að verja eða flytja til trjá- og runnagróður eins og frekast er unnt. Forðast skal rask á gróðri utan lóðar eða svæða sem framkvæmdir ná til og gróðursetja eða þökuleggja sár með viðeigandi gróðurþekju.
Landhalli er í lóðinni, en jarðvegsaðstæður ekki að fullu þekktar. Óska má eftir leyfi til að gera jarðvegsprufur til að kanna aðstæður.
Sjá hér til hliðar götumynd af ja.is - myndin opnast ef smellt er á hana. Fleiri myndir eru hér fyrir neðan.
Gatnagerðargjald skv. gjaldskrá Grundarfjarðarbæjar.
Sjá hér verðgrunn gatnagerðargjalda á vef Hagstofunnar.
Ekki er afsláttur af gatnagerðargjaldi af þessari lóð.
Dæmi: (reiknað í janúar 2024, háð mánaðarlegum vísitölubreytingum)
200 m2 einbýlishús: 4,6 millj. kr.
120 m2 íbúð í parhúsi: 2,4 millj. kr.
Milli reiðvegar og Fellasneiðar, ofan við lóðirnar nr. 5 og 7.
Milli reiðvegar og Fellasneiðar, ofan við lóðirnar nr. 5 og 7.